4×4 ferð í Setrið

Við Sóley skruppum með Ferðaklúbbnum 4×4 í Setrið um helgina, lagt var af stað snemma á laugardagsmorgni áleiðis á Geysi og upp Kjalveg inn að Kerlingarfjöllum og var hugur í mönnum að kíkja jafnvel inn að nýlega uppgötvuðum íshelli í Blágnípujökli(Í vestanverðum Hofsjökli) ef vel gengi. Ferðin sóttist vel, eitthvað var af bílum og ökumönnum sem voru að stíga sín fyrstu skref, og var þeim hjálpað og komust flestir upp á lagið um síðir.

Færi var nokkuð erfitt utan slóða, og þó einnig í slóð ef menn á minni bílum lentu í förum eftir þá stóru, en í ferðinni var ekki skipuleg hópaskipting heldur óku menn nokkurnveginn eins og þeir vildu. Kom því fyrir að 38″ bílar fylgdu 49″ bíl og lentu þá á maganum og fríhjóluðu, undirritaður lenti amk. tvisvar í þessu, en það er líka allt í lagi, bara gaman, þó ég sé vanari að í svo stórum ferðum séu smærri bílar samferða, og stærri bílar samferða.

Um tvö eftir hádegi vorum við komnir að Setursafleggjara við Kerlingarfjöll, var skyggni þá orðið mjög takmarkað í ljósaskiptunum svo keyrt var eftir tækjum, nokkrir höfðu leið inn að Íshelli og héldu þangað án þess að ræða það frekar, þeirri ákvörðun er ég mjög glaður, enda frábært og einstakt að koma í helli þennan, líkt og aðra. Hellirinn er tignarlegur, en þó ekki mjög djúpur, en líklega er um 15 metrar upp í loft og 20 metrar á breidd, upp úr hellinum stígur mikil hveralykt.

Þegar flestir voru búnir að skoða sig um í hellinum(þangað komust ekki allir bæði vegna affelgana og erfiðs færis) var klukkan orðin um 1630 og tímabært að fara að koma sér áleiðis að Setri. Tók þá að dimma og létti um leið á snjóblindunni, færðin skánaði lítið fyrr en um 6km. voru eftir inn að Setri, sóttist ferðin hægt og voru fyrstu menn að lenda við Setur um kl 20 og komum við þangað um 20.30. Einhverjir voru seinna á ferðinni og einn bíl þurfti að skilja eftir undir Loðmundi vegna bilunar, verður hans vitjað næstu helgi með varahluti og gert við á staðnum. (Afturöxull brotnaði)

Ferðanefnd 4×4 hafði skipulagt sameiginlegan kvöldverð og hjálpuðust margir að við að koma 11 lambalærum og 20kg af brúnuðum kartöflum ofan í mannsskapinn, urðu að ég tel allir mjög saddir og sælir, allavega var það að sjá á afgöngunum morguninn eftir.

Ræsing var kl 8 og gekk vel að koma öllum af stað, eitthvað var um að bilanir uppgötvuðust á sunnudagsmorgni, t.d. var einn bíll að missa hjól undan vegna skorts á felguboltum, einhverjir áttu í erfiðleikum með gangsetningu eins og gengur en allt hafðist þetta á endanum og vorum við komin af stað rétt um 9.45

Ákveðið var að fara styttri leið niður á uppbyggðan veg, niður á Sprengisandsleið F26, eða í raun Kvíslaveituveg, yfir vað á Þjórsá við Sóleyjarhöfða. Telja mætti að vaðið væri botnfrosið langt á haf út enda komust allir þar klakklaust yfir, á nokkrum stöðum á leiðinni mátti sjá bláma í snjónum enda ekki ósennilegt að þar hafi eitthvað rignt fyrir tveim vikum um það leiti sem við vorum á heimleið úr Landmannalaugum, en þetta kom ekki að sök, allir komust nokkuð auðveldlega niður á Kvíslaveituveg og þaðan á fullri ferð í Hálendismiðstöðina Hrauneyjar, þar sem ferðinni var slúttað.

 

Myndir fylgja >

Á Kjalvegi, við Gunnar Áki höfum ferðast svolítið saman, hann var mér til halds og trausts í þessari ferð enda hafði bíll hans yfirburða drifgetu í því færi sem þarna var

Vestur undir Bláfelli, þar skefur oft leiðinlega og hafði þarna skafið botnlaust víða þannig menn þurftu þarna strax að hleypa almennilega úr

Hellismunninn

Ógurlega tignarlegur

Hella selfie

Hópurinn sem fór í hellinn

Komnir í Setur

Langgrill, hentugt þegar grilla á fyrir um 50 manns.

Afgangarnir á sunnudagsmorgni

Árla morguns fyrir brottför, fallegt í ljósaskiptum

Hálftíma síðar var birtan orðin svona

Komin á Kvíslaveituveg

Fullpumpað við Hrauneyjar

 

 

Hér fyrir neðan eru myndir sem Sóley tók á sinn síma

Verið að mýkja í ofan Gullfoss

Einhver speki er bakvið þessa mynd það getur ekki annað verið…

Á leið inn að Helli flatmagaði ég í förum eftir þennan trukk

Tignarleg aðkoma að hellinum, fara þarf að öllu með gát þegar gengið er niður þröngan og brattan skafl

Ég og Gunni í hellinum

Við Sóley við hellismunnan, þar steig upp mikil hveralykt

Færðin skánaði ekki fyrr en um 6km voru eftir að Setrinu

Bílar með framhásingu og stór dekk höfðu yfirburði, en þetta sóttist allt ágætlega engu síður þó hjakkið hafi reynt aðeins á þolinmæðina

Skipt um felgubolta á sunnudagsmorgni

Ég fékk líka að draga!

Aftur á maganum í djúpum förum

við Sóleyjarhöfða

 

Leave a Reply