Vonskuveður í Reykjavík og nágrenni

Í fréttum sagði að allir skyldu halda sig innandyra nema í nauðsyn. Óveður er nauðsyn að upplifa, annars verða menn aumingjar.

Mér finnst fátt skemmtilegra en að æfa mig í erfiðum aðstæðum og í gær var tilvalið tækifæri til þess, í bakgarðinum heima ef svo má segja.

Ég rúntaði svolítið innabæjar, og svo upp í Bláfjöll og til baka á nær auðum vegi, hitti þá seinnipartinn nokkra félaga, á súkku og tveimur landróver jeppum, við fórum saman Djúpavatnsleið yfir á suðurstrandarveg og Kleifarvatn og Krýsuvíkurveg til baka, þetta var hin almesta jeppaferð sem ég hefi farið innan 50km radíuss frá heimili mínu til þessa.

Sóttist ferð vel og reyndi vel á bíla og menn, enda alls kyns færi, aðallega þungt, amk. þar til komið var að Djúpavatni, þaðan suðurúr voru skaflar á veginum en nokkuð létt að aka. Nokkra lægni þurfti til að aka án þess að lenda utan í grjótum og eins að velja leiðir sem voru síður líklegar til þess að skemma dekk, enda sukku bílar vel í snjóinn og oft erfitt að vita hvað leynist undir.

Nokkrar myndir

 

Í heiðmörk var snjór upp á húdd í sköflum

Komnir á Djúpavatnsleið

Allir að prófa að ryðja, góð æfing 🙂

Skriðið milli steina

Eina festan í ferðinni, staðan á Hilux hjá mér frá því ég eignast hann er því 14-11 þ.e. ég hef þrisvar oftar gefið drátt en þegið. Gott að halda bókhald um þetta!

LED ljós bræða betur af sér en 100W halogen ljós, PÚNKTUR!

Að dæla í

Fórum fljótlega að sjá för eftir fólksbifreið á Krísuvíkurvegi, mættum svo bíl með tveimur sem sögðust hafa reynt að losa bíl sem væri fastur ofar en hefðu skilið hann eftir, hann væri ónýtur, og á miðjum veginum svo við kæmumst ekki fram hjá. Við héldum því áfram og römbuðum á þennan framdrifna gólf fólksbíl og í honum voru tveir ungir menn, illa klæddir, bíllinn gekk ekki, alternator reimin hafði yfirgefið vistina, voru strákar því í vanda staddir, og eiginlega skil ég ekki hví þeir fengu ekki far með þeim sem reyndu að losa þá áður. En allavega tók ég og þessi hópur annað ekki í mál en að bíllinn yrði skilinn eftir og mennirnir ferjaðir til byggða, enda óvíst hvort nokkur aki þennan veg fyrr en á morgun, þeir illa klæddir og á ógangfærum bíl. Íslendingar!

 

Leave a Reply