Við skruppum saman nokkrir félagar í Dalakofann



















Við skruppum saman nokkrir félagar í Dalakofann
Veturinn kom loks! Það snjóaði aðeins í vikunni, en ég hef ekki farið á hálendið, annnað en í Landmannalaugar fyrstu viku janúar. Líkt og sl. 10 ár.
Það var ekkert öðruvísi þetta ár, annað en að enginn snjór var að ráði, aðallega krapapollar og klakapollar og engin leið að feta inn úr nema eftir vegum líkt og um sumar.
Tveir vinir mínir frá Bretlandi komu með, við kynntumst um 2004 þegar við spiluðum saman tölvubílaleik gegnum internetið. Ótrúlega lítill heimur og skemmtilegur!
Annar þeirra er sá sami og hitti mig sl. sumar.
Nokkrar myndir frá Sóley
Come sail away!
Hópurinn við Landmannahelli, það var auðvelt að aka upp Dómadalsháls vegna snjóleysis
Bretarnir hrifnir af Íslensku lambi
Komin að Sigöldu
Við Sóley ókum Syðra fjallabak fram og tilbaka sl. helgi, í fyrsta skipti að sumarlagi.
Síðan koma myndir frá Sóley!
Við Sóley vorum ákveðin í að fara vestur á Ísafjörð á tónleikahátíðina Aldrei fór ég suður!
Búin að útvega okkur gistingu á Súganda og allt… en félagarnir brugðust, við nenntum ekki að fara ein. Þannig við ákváðum að slá til jeppaferðar, en félagarnir brugðust þar aftur, þá var fátt að gera en að slást í för með öðrum félagahóp og fór það svo að við, og pabbi og Einar Sólonsson og Steinþór á Trooper lögðum í reisu til Seturs.
Hér er eitthvað af myndum frá ferðinni
Setrið, þar voru fyrir austfirðingar sem höfðu skroppið í Nautöldu og gegnum Blautukvíslargljúfur sem við áttum eftir að skoða!
Það var skammgóður vermir að hafa spilið framan á, fjöðrunin fékk að kenna á því á leiðinni inneftir svoleiðis að ég var fljótur að tjóðra spilið á pallinn á laugardeginum!
Austfirðingar leiða okkur áleiðis að Kisugljúfrum, þeir héldu síðan áfram suðurfyrir Kerlingarfjöll og inn á Hveravelli
Svo fórum við norður fyrir setur og í Blautukvíslargljúfur, þar er ekki alltaf bílfært en gekk vel núna.
Selfy við íhleypingar, menn voru ýmist með úrhleypibúnað eða ekki en enginn þurfti að bíða eftir neinum, gamla lagið virkar líka alveg, allavega hef ég ekki nennt að setja úrhleypibúnað þó ég eigi hann til.
Þrátt fyrir háan aldur og staðsetningu á hálendinu er ástand kláfsins, og grindarinnar ótrúlega gott.
Þessa bjó ég til fyrir félaga mína á Hilux Pickup Offroad Club en hún nýtist hér engu síður, jökullinn sem sést er Hofsjökull sunnanverður og norður snýr upp.
Við skruppum félagar á Eyjafjallajökul í góða veðrinu, og færinu, þó var þörf að hafa varann á vegna hálku, en ef menn höfðu nagla og góða fjöðrun mátti halda góðri ferð.
Skruppum félagar á langjökul og snerum við vegna slæms skyggnis fórum svo hratt yfir skjaldbreiður og til byggða, skemmtilegur skreppur á harðfenni, fólksbílsfæri, reyndi mikið á fjöðrunarbúnað bílanna og stóð hilux sig prýðilega…
Um liðna helgi héldum við félagar á ellefu bílum upp Fljótshlíð og upp Emstruleið og ætluðum inn á fjallabak og þangað inn að Strút. Ferðin fór ekki alveg eins og til var ætlast vegna erfiðrar færðar og krapa sem við lentum í við Gilsá í Fljótshlíð og tafði okkur mikið.
Gilsá rann í mörgum flæðum, framhjá ræsum sem notuð eru á sumrin, það gekk ekki að aka eftir veginum þarna enda mjög djúpt fram af þar sem ræsin hafa verið sett
Skurðurinn er rúmlega mannhæðardjúpur, eins gott að bæði framhjól fóru ekki niður gegn segi ég bara! 🙂
Komin uppúr, vélin tók inn vatn en varð ekki meint af, dugði að ræsa út af henni með því að losa glóðarkerti og setja svo í gang
Halarófa gegnum krapasvæðið sem við lentum í deginum áður, í þetta sinn þrömmuðum við þarna yfir án þess að bleyta hjól, menn gengu undan bílunum með járnkalla og könnuðu undirlagið vel. Þetta borgaði sig!
Í fréttum sagði að allir skyldu halda sig innandyra nema í nauðsyn. Óveður er nauðsyn að upplifa, annars verða menn aumingjar.
Mér finnst fátt skemmtilegra en að æfa mig í erfiðum aðstæðum og í gær var tilvalið tækifæri til þess, í bakgarðinum heima ef svo má segja.
Ég rúntaði svolítið innabæjar, og svo upp í Bláfjöll og til baka á nær auðum vegi, hitti þá seinnipartinn nokkra félaga, á súkku og tveimur landróver jeppum, við fórum saman Djúpavatnsleið yfir á suðurstrandarveg og Kleifarvatn og Krýsuvíkurveg til baka, þetta var hin almesta jeppaferð sem ég hefi farið innan 50km radíuss frá heimili mínu til þessa.
Sóttist ferð vel og reyndi vel á bíla og menn, enda alls kyns færi, aðallega þungt, amk. þar til komið var að Djúpavatni, þaðan suðurúr voru skaflar á veginum en nokkuð létt að aka. Nokkra lægni þurfti til að aka án þess að lenda utan í grjótum og eins að velja leiðir sem voru síður líklegar til þess að skemma dekk, enda sukku bílar vel í snjóinn og oft erfitt að vita hvað leynist undir.
Nokkrar myndir
Eina festan í ferðinni, staðan á Hilux hjá mér frá því ég eignast hann er því 14-11 þ.e. ég hef þrisvar oftar gefið drátt en þegið. Gott að halda bókhald um þetta!
Fórum fljótlega að sjá för eftir fólksbifreið á Krísuvíkurvegi, mættum svo bíl með tveimur sem sögðust hafa reynt að losa bíl sem væri fastur ofar en hefðu skilið hann eftir, hann væri ónýtur, og á miðjum veginum svo við kæmumst ekki fram hjá. Við héldum því áfram og römbuðum á þennan framdrifna gólf fólksbíl og í honum voru tveir ungir menn, illa klæddir, bíllinn gekk ekki, alternator reimin hafði yfirgefið vistina, voru strákar því í vanda staddir, og eiginlega skil ég ekki hví þeir fengu ekki far með þeim sem reyndu að losa þá áður. En allavega tók ég og þessi hópur annað ekki í mál en að bíllinn yrði skilinn eftir og mennirnir ferjaðir til byggða, enda óvíst hvort nokkur aki þennan veg fyrr en á morgun, þeir illa klæddir og á ógangfærum bíl. Íslendingar!
Í gær skruppum við félagar á þremur bílum á Skjaldbreiður, í raun til að reyna á nýsmíðaðan bíl Brynjars félaga okkar, suzuki vitara jeppa á 37″ dekkjum.
Hann hafði komið með okkur á bílnum í Landmannalaugar í byrjun janúar en lent í vandræðum með drifbúnað, og sannað þykir að lausn hafi fundist á því vandamáli því bíllinn stóð sig vel í ferðinni núna.
Skyndiákvörðun réði för, um kl 13.00 kom hugmynd að förinni, kl 14.30 hittumst við og lögðum af stað, við vissum af félögum okkar sem höfðu farið þetta fyrr um morguninn og mættum við þeim við Þingvelli.
Allt gekk einsog í sögu, töluvert var af bílum á ferðinni og enn fleiri vélsleðar, förin á Gjábakkavegi voru svo mörg, og svo óslétt að nánast var ógjörningur að halda nokkrum ferðahraða, en við vorum komin að Skjaldbreiðum um kl 1630 í ljósaskiptum, við þaustum upp og höfðum lítið fyrir, þrátt fyrir nokkurn snjó, bílar og menn stóðu sig vel og súkkan þaut eins og snjóþota ofaná snjónum meðan dísel orkuverin áttu í mestu makindum með að halda í við hana, þarna sá ég í fyrsta skipti kælivatnshitamælinn á mínum bíl rísa, enda kannski ekki skrítið, hamagangurinn var slíkur.
í 800 m.y.s. fór skyggni að versna mjög og snerum við þá við, meðan þeir félagar tóku myndir laumaðist ég upp í 900m.y.s. eftir GPS og sá ekki nokkurn skapaðan hlut, og átti oft erfitt með að átta mig á hvort bíllinn var á hreyfingu eða ekki, svo þá var snúið við.
Sammældumst við um að prófa að aka Eyfirðingaveg frá Skjaldbreiðum og þannig yfir á Uxahryggjaleið. Gekk sú ferð ágætlega þar til um 11km voru eftir, þá var bleyta í förum farin að gera verulega vart við sig og greinilegar tjarnir sem myndast höfðu undir snjólagi, töldum við óráðlegt að halda ferð þessari áfram eftir að ég hafði brotnað niður um vök og sá hvergi leið áfram öðrumvísi en að halda mjög til hryggja, sem er letjandi og ekki gáfulegt m.a. vegna þess að við vorum ekki vel útbúnir fyrir krapasull, og í nokkurri tímaþröng, eða ég og Sóley hið minnsta því hún þurfti að mæta í vinnu um kvöldið.
Snerum við því til baka inn á Gjábakkaveg og hossuðumst þar niður á Þingvelli.
Nokkrar myndir frá Sóley
Útbúning þennan fékk ég frá Ali Express fyrir lítið fé, og þar sem ég legg mikla áherslu á að vera ekki töff, þá fer þetta mér bara nokkuð vel
Menn voru viljugir heim, og bauð færið oft upp á slíkan ferðahraða, en frosnir hryggir mynduðu reglulega þessa stökkpalla og þá var eins gott að halda sér vel
Þarna fórum við yfir á nokkurri ferð en sáum tjörn fyrir framan og minnkuðum hraðann, við það súnnkaði Hilux minn niður í krapa en kraflaði sig áfram upp á steinþúfu, ákváðum við þá að snúa för okkar til baka